Guðmundur kominn með sæti á EM

Guðmundur Guðmundsson stýrði Dönum í fyrsta sinn á stórmóti á …
Guðmundur Guðmundsson stýrði Dönum í fyrsta sinn á stórmóti á HM í Katar fyrr á þessu ári. EPA

Guðmundur Guðmundsson varð í kvöld fyrsti Íslendingurinn til að fá farseðil á Evrópumót karla í handknattleik sem fram fer í Póllandi í janúar á næsta ári.

Lærisveinar Guðmundar í danska landsliðinu unnu Hvíta-Rússland af öryggi, 32:23, í kvöld eftir að staðan hafði verið 18:11 í hálfleik. Mikkel Hansen og Casper U. Mortensen skoruðu sjö mörk hvor.

Danir hafa unnið alla fjóra leiki sína í riðlinum og eru með fimm stiga forskot á Hvít-Rússa og Bosníumenn þegar Danmörk og Hvíta-Rússland eiga tvo leiki eftir og Bosnía þrjá. Tvö efstu liðin komast upp úr hverjum riðli.

Ungverjaland er einnig öruggt áfram á EM sem og heimamenn í Póllandi.

Austurríki, undir stjórn Patreks Jóhannessonar, vann Finnland öðru sinni í kvöld, 29:22, eftir að staðan hafði verið jöfn í hálfleik, 14:14. Austurríki er í hrikalega erfiðum riðli með Spáni, Þýskalandi og Finnlandi. Austurríki er nú með 4 stig líkt og Spánn en Þýskaland er efst með 6 stig. Spánn og Þýskaland mætast á morgun. Austurríki á eftir að mæta Spáni á heimavelli og Þýskalandi á útivelli í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert