Þórey frábær og veldið féll

Þórey Rósa Stefánsdóttir.
Þórey Rósa Stefánsdóttir. mbl.is/Ómar

Þórey Rósa Stefánsdóttir var markahæst þegar lið hennar Vipers Kristiansand kom öllum á óvart með því að leggja stórlið Larvik að velli, 31:25, í fyrsta leik í undanúrslitum norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik.

Larvik vann alla 22 leiki sína í deildinni í vetur og flestir bjuggust við að nú væri tímabilinu að ljúka hjá Vipers sem hafnaði í 6. sæti deildarinnar. Þórey og stöllur hennar voru á öðru máli.

Staðan í hálfleik var 15:13 Vipers í vil og liðið vann að lokum sex marka sigur. Þórey skoraði átta mörk og var markahæst eins og áður segir en norska landsliðskonan Nora Mörk skoraði sjö fyrir Larvik, sem hefur orðið deildarmeistari 10 ár í röð í Noregi og ekki tapað deildarleik á þeim tíma.

Liðin mætast aftur á heimavelli Larvik á þriðjudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert