Dæma úrslitaleik Evrópukeppni

Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson, handknattleiksdómarar, hafa fengið stórverkefni.
Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson, handknattleiksdómarar, hafa fengið stórverkefni. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma úrslitaleik EHF-keppninnar í handknattleik karla sem fram fer í Max Schmeling-halle í Berlin 17. maí. Þetta er stærsta verkefni sem þeir félagar hafa fengið á dómarferli sínum. 

„Þetta er áfangasigur fyrir okkur og afrakstur mikillar vinnu," sagði Anton Gylfi í samtali við mbl.is fyrir stundu en þeir félagar hafa dæmt saman síðustu tvö keppnistímabil. Á þeim tíma hefur alþjóðlegum verkefnum þeirra fjölgað jafnt og ábyrgðin aukist um leið.

Ekki er ljóst hvaða lið mætast í úrslitaleiknum en svokölluð „final four" helgi verður nú haldin í annað þar sem EHF-keppnin verður leitt til lykta.

Liðin fjögur sem leika til undanúrslita laugardaginn 16. maí eru Skjern frá Danmörku, þýsku liðin Hamburg og Füchse Berlin, sem Dagur Sigurðsson þjálfar, og Gorenje Velenje frá Slóveníu. Skjern og Hamburg mætast annarsvegar í undanúrslitum og Füchse og Velenje hinsvegar. Sigurliðin leika til úrslita 17. maí og tapliðin mætast í leik um þriðja sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert