Grótta án fjögurra í úrslitaleik númer tvö?

Karólína Bæhrenz Lárudóttir
Karólína Bæhrenz Lárudóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karólína Bæhrenz Lárudóttir leikur ekki meira með Gróttu í úrslitaeinvíginu við Stjörnuna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik.

Hún tognaði í læri snemma í fyrsta úrslitaleiknum á Seltjarnarnesi í gærkvöld, því má telja fullvíst að jafnvel þótt einvígið færi í fimmta leik, sem færi fram 15. maí, yrði hún ekki búin að jafna sig. Þetta er mikið áfall fyrir Gróttu enda Karólína hornamaður í landsliðsklassa.

Rétt fyrir hálfleik missti Grótta svo fyrirliðann Laufeyju Ástu Guðmundsdóttur af velli eftir að hún tognaði í kálfa. Laufey hefur verið að glíma við meiðsli í kálfa í úrslitakeppninni en spilað þrátt fyrir það, og átti stórleik í oddaleiknum gegn ÍBV í undanúrslitum, en það var á henni að heyra í gærkvöldi að nú væri tímabilinu endanlega lokið.

Þess má geta að Karólína og Laufey Ásta voru markahæstu leikmenn Gróttu í deildarkeppninni í vetur og skoruðu báðar yfir 100 mörk.

Þriðji sterki leikmaðurinn, Anett Köbli, spilaði ekkert í síðustu tveimur leikjunum gegn ÍBV vegna meiðsla, og hún var heldur ekkert með í leiknum við Gróttu í gærkvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert