Skaddað liðband hjá Sverre

Ljúfmennin Bjarki Már Gunnarsson og Sverre Jakobsson eru engin lömb …
Ljúfmennin Bjarki Már Gunnarsson og Sverre Jakobsson eru engin lömb að leika sér við þegar inn á völlinn er komið. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sverre Jakobsson, landsliðsmaður í handbolta, er með skaddað liðband í hné eftir leikinn gegn Serbíu í undankeppni EM á sunnudagskvöldið eins og Morgunblaðið greindi frá í gær.

Sverre fór í myndatöku á þriðjudaginn þar sem í ljós kom að liðbandið er skaddað. Ekki er útilokað að krossband hafi gefið sig en það er þó talið ólíklegt að sögn Sverre. Næstu skref í málinu verða tekin eftir 2-3 vikur en ef batinn verður góður á þeim tíma þykir ljóst að krossbandið hafi sloppið.

„Þá verður staðan tekin aftur og þetta verður krufið frekar. Liðbandið er sjálfsagt illa farið og þarf tíma til að jafna sig. Væntanlega tekur það einhverjar vikur, jafnvel fjórar til átta vikur skilst mér. Ég finn að hnéð er ekki alveg eins og það á að vera en ef krossbandið hefur sloppið þá er ég bara nokkuð sáttur við stöðuna. Ef líðanin er svipuð eftir þrjár vikur þá eru líkur á því að fleira en liðbandið hafi skaddast. Þá tækju væntanlega við frekari rannsóknir,“ sagði Sverre þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær. Sverre er á 38. ári og lék sinn 182. A-landsleik í jafnteflisleiknum í Serbíu en óvíst er að þeir verði fleiri. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert