Gerðum of mörg mistök

Alfreð Gíslason var eðlilega vonsvikinn eftir tapið fyrir Veszprém í …
Alfreð Gíslason var eðlilega vonsvikinn eftir tapið fyrir Veszprém í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í dag. JONAS GUETTLER

„Við lékum ekki nógu vel í síðari hálfleik. Þá gerðum við of mikið af mistökum, svo sem slæmum sendingum, og þegar á leið leikinn skutum við illa á móti Alinovic, markverði," sagði Alfreð Gíslason, þjálfari þýska meistaraliðsins Kiel, eftir að lið hans tapaði í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik fyrir Veszprém í Lanxess-Arena í Köln, 31:27.

„Seinni hálfleikur var slakur hjá okkur og það varð okkur að falli. Veszprém-liðið lék betur og þegar upp var staðið þá verðskuldaði það sigurinn," sagði Alfreð sem var skiljanlega vonsvikinn með úrslitin þar sem eins og áður segir þá fóru hans menn illa að ráða sínu á afdrifaríkum köflum í leiknum, í byrjun síðari hálfleiks þegar þeir misstu Veszprém-liðið fjórum mörkum fram úr sér á fyrstu sex mínútunum og undir lokin þegar veik von vaknaði um að jafna metin.

„Það verður heldur ekki af Veszprém tekið að liðið lék góðan varnarleik," sagði Alfreð.

„Við lékum vel í fyrri hálfleik, ekki síst í vörninni lengi framan af hálfleiknum en skipti eftir skipti þá fengu leikmenn Veszprém að mínu mati mörg ódýr aukaköst og gátu þar með haldið áfram. En svona er þetta og ekkert við að gera.

Ég vona bara innilega að við getum leikið betri og heilsteyptari leik gegn Vive Kielce í leiknum um þriðja sætið á morgun," sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert