Hin landsliðin ýta bara við okkur

Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn Hallgrímsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ásgeir Örn Hallgrímsson landsliðsmaður í handknattleik er ánægður rmeð stemninguna í íslenska landsliðinu. Ísland mætir Svartfjallalandi í dag í síðasta leik riðilsins og þarf á sigri að halda ætli liðið sér að vinna riðilinn.

Mikil umræða skapaðist um það á miðvikudagskvöld hvort Ísland væri í raun komið áfram eftir að úrslit lágu fyrir í öðrum riðlum en svo var hins vegar ekki. Ásgeir segir landsliðið sjálft ekki hafa fylgst með því.

„Nei við vorum alveg „blankó“. Við vorum að ferðast allan daginn og vissum ekkert af þessu. Þetta skiptir þannig lagað engu máli fyrir okkur. Við ætlum bara að vinna þetta,“ sagði Ásgeir við mbl.is.

Viljum ekki vera í 2., 3. eða 4. sæti

Ásgeir segir mikilvægt fyrir liðið að halda þeirri góðu stemningu sem hefur fylgt landsliðinu eftir tvo góða leiki gegn Serbum

„Úr því hvernig þetta spilaðist. Við töpuðum útileiknum á móti þeim og náum svo upp tveimur flottum leikjum gegn Serbum. Þá finnst mér skylda okkar að fara í þennan leik til þess að vinna hann. Vera flottir og vinna þennan riðil. Annars töpum við bara niður þessum fínu leikjum sem við náðum á móti Serbum,“ sagði Ásgeir.

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik var um tíma vinsælasta íþróttalið þjóðarinnar, „strákarnir okkar“ voru þeir kallaðir. Ákveðinn dofi var hins vegar yfir liðinu í aðdraganda heimsmeistaramótsins í Katar sem liðið komst að lokum inn á eftir að hafa fengið svokallað „wildcard“ sæti frá Alþjóða handknattleikssambandinu.

„Þetta hefur þannig lagað ekkert með árangur annarra að gera. Við erum rosa glaðir þegar hinir eru góðir líka. Það ýtir bara við okkur þegar að fótboltinn og karfan eru öll að standa sig hrikalega vel. Þá finnst okkur súrt að hugsa út í það að við erum bara komnir í annað, þriðja eða fjórða sæti. Það er eitthvað sem við erum ekkert tilbúnir að sætta okkur við. Það er í okkar höldum að spila vel og halda okkur á þessum mótum,“ sagði Ásgeir Örn.

Hann er ánægður með stemninguna í hópnum þessa dagana.

„Það er eins og við höfum misst eitthvað sjálfstraust sem við fengum svo óvænt til baka á móti Serbum. Það er okkar að halda þessu áfram. Það var fínt að fá Ísraelsleikinn á undan til þess að ná mönnum saman og æfa saman. Stemningin er mjög fín. Við reynum alltaf að gera það sem við getum en stundum náum við ekki hugarfarslega hlutanum alveg í gang einhverra hluta vegna“ sagði Ásgeir.

Ásgeir Örn Hallgrímsson
Ásgeir Örn Hallgrímsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert