Ísland mætir Noregi í fyrsta leik

Ásgeir Örn Hallgrímsson í baráttu við Håvard Tvedten og Bjarte …
Ásgeir Örn Hallgrímsson í baráttu við Håvard Tvedten og Bjarte Myrhol í síðustu Evrópukeppni í Danmörku. AFP

Í dag var birt leikjaröð og tímasetningar á leikjunum í úrslitakeppni Evrópumóts karla í handknattleik sem fram fer í Póllandi í janúar 2016 en þar er Ísland í B-riðli í Katowice eins og áður hefur komið fram.

Íslenska liðið mætir Norðmönnum í fyrstu umferðinni sem er leikin föstudaginn 15. janúar. Leikurinn hefst kl. 17.15 að íslenskum tíma en á undan mætast Króatía og Hvíta-Rússland.

Í annarri umferð sunnudaginn 17. janúar leikur Ísland við Hvíta-Rússland klukkan 15 að íslenskum tíma og í síðustu umferð riðilsins, þriðjudaginn 19. janúar, verður spilað við Króata klukkan 19.30.

Eftir það taka við milliriðlar en ef Ísland verður eitt þeirra þriggja liða úr B-riðli sem halda áfram keppni verður leikið gegn þremur efstu liðunum i A-riðli. Í honum eru Frakkland, Pólland, Makedónía og Serbía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert