„Vona að minn tími sé kominn“

Ólafur Bjarki Ragnarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Ólafur Bjarki Ragnarsson í leik með íslenska landsliðinu. Ómar Óskarsson

„Maður er búinn að vera lengi meiddur og ekki alveg jafn margir gluggar opnir, en ég er mjög ánægður með að hafa náð að halda mér úti og fá annað tækifæri til að sanna mig eftir þessi meiðsli,“ sagði Ólafur Bjarki Ragnarsson, sem samdi við Eisenach í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag.

Ólafur hefur leikið með Emsdetten undanfarin þrjú ár, eða frá því hann vann deildartitilinn með HK. Hann hefur þó þurft að glíma við mikil meiðsla, en bakið hefur verið að hrjá þennan öfluga leikstjórnanda.

Hann lék einungis fjóra leiki á síðustu leiktíð, en ljóst var að hann yrði ekki áfram hjá Emsdetten. Hann samdi við Eisenach í dag sem mun leika í efstu deild á næsta tímabili, en hann er spenntur fyrir því ævintýri. Samningurinn er til næstu tveggja ára.

„Mér líst mjög vel á þetta. Þeir voru að fara upp og stóðu sig mjög vel á síðasta tímabili og ég fór þarna að skoða og leist mjög vel á allt. Þetta er svipaður bær og Emsdetten, en þetta er samt í fjöllum og aðeins flottara,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is í dag.

Ánægður með að fá annað tækifæri

Eins og áður segir þá lék Ólafur einungis fjóra leiki á síðustu leiktíð, en bakmeiðsli hafa verið að hrjá hann. Ólafur er afar þakklátur fyrir að fá annað tækifæri til þess að sanna sig, en hann segir að Eisenach hefði sýnt honum áhuga í einhvern tíma.

„Þeir voru búnir að sýna áhuga í smá tíma, en ég vildi prófa að skoða eitthvað annað og sjá hvort það væri annað í boði. Maður er búinn að vera lengi meiddur og ekki alveg jafn margir gluggar opnir en ég er mjög ánægður með að hafa náð að halda mér úti og fá annað tækifæri til að sanna mig eftir meiðsli.“

„Vonandi er þessi meiðslapakki búinn, þetta er komið gott núna. Ég er með skráða sex leiki á síðasta tímabili, sem voru tæknilega bara fjórir. Maður sat á bekknum bara til að fá fílinginn og það gekk vel í leikjunum sem ég spilaði, en svo byrjaði bakið að stríða mér sem endaði með aðgerð,“ sagði Ólafur ennfremur.

Markmiðið að ná að byrja fyrsta leik

Ólafur hefur undanfarnar vikur verið í endurhæfingu, en hann æfir hjá sjúkraþjálfara HK. Hann vonast eftir því að ná einhverjum æfingaleikjum á undirbúningstímabilinu svo hann verði klár í fyrsta leik.

„Endurhæfingin gengur vel og ég er bjartsýnn á næsta tímabil. Ef allt gengur vel þá nær maður fyrsta leik. Ég er með sjúkraþjálfaranum mínum á Íslandi sem ég er alltaf hjá þegar ég kem hingað og er að lyfta og taka þessar litlu æfingar áður en maður byrjar að hlaupa eitthvað og fá högg á bakið.“

Maður reynir að halda því prógrami áfram með stíganda. Ég er að vona að ná einhverjum æfingaleikjum fyrir tímabilið og koma sér þannig inn í þetta, frekar en að byrja fyrsta leik og vara í „full-action“,“ sagði hann.

Miklar breytingar hjá Eisenach

Það hefur verið mikið um breytingar á leikmannahópnum hjá Eisenach í sumar, en meðal þeirra sem yfirgáfu félagið eru þeir Bjarki Már Elísson, sem samdi við Fucshe Berlin og svo Hannes Jón Jónsson sem tók við West Wien.

Ég kannast við einhverja leikmenn þarna, en það voru svo margir að fara og margir nýir að koma inn að ég veit ekki alveg hvernig þetta verður. Ég kannast við 1-2 því maður hefur spilað á móti þeim en ég er bjartsýnn á að þetta eigi eftir að ganga upp hjá okkur.“

„Maður á eftir að hitta strákanna og sjá hvernig þeir eru, en vonandi er strúktúrinn svipaður, þó svo það sé leiðinlegt að missa Íslendinga úr liðinu. Ég hefði ekki hatað að hafa Íslendinga þarna því það er svo þægilegt og skemmtilegt, en kannski bara næst.“

Alltaf markmið að komast aftur í landsliðið

Ólafur hefur lítið spilað með landsliðinu undanfarin þrjú ár, en hann var síðast á stórmóti með íslenska landsliðinu í Serbíu á EM. Markmið hans eru afar skýr, en hann ætlar sér að komast aftur í hópinn.

„Það eru alltaf leiðindi þegar það er heyrt í manni því það er alltaf hitt og þetta að manni og alltaf eitthvað komið upp síðustu tvö eða þrjú ár. Ég er að vona að minn tími sé kominn að ég geti spilað meiðslalaus, þó svo það sé alltaf eitthvað smotterí í gangi hjá flestum leikmönnum,“ sagði Ólafur að lokum.

Ólafur Bjarki Ragnarsson
Ólafur Bjarki Ragnarsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert