Róbert Sighvatsson tekinn við Þrótti

Nýtt þjálfarateymi Þróttar ásamt stjórnarmönnum við undirsrkrift í dag.
Nýtt þjálfarateymi Þróttar ásamt stjórnarmönnum við undirsrkrift í dag. mbl.is / heimasíða Þróttar trottur.is

Róbert Sighvatsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Þróttar í handknattleik sem leikur 1. deildinni. Þetta kemur fram á heimasíðu Þróttar fyrr í dag. Þróttur lenti í næstneðsta sæti í 1. deildinni á síðastliðnu tímabili, en liðið fékk einvörðungu níu stig úr 24 leikjum.  

Róbert spilaði með Víkingi og Aftureldingu hér heima og Schutterwald, Düsseldorf, Dormagen og Wetzlar á leikmannaferli sínum. Róbert sneri sér svo að þjálfun þegar leikmannaferli hans lauk og hefur hann þjálfað Víking hér heima og síðar Wetzlar í þýsku 1. deildinni.

Róbert lék 160 leiki með íslenska landsliðinu á sínum tíma og skoraði í þeim leikjum 243 mörk. 

Róberti til aðstoðar hjá Þrótti verða Leifur Óskarsson sem einnig mun leika með liðinu og Gylfi Gylfason. Gylfi mun gera félagaskipti yfir í Þrótt sem leikmaður en óljóst er á þessari stundu hvort Gylfi muni leika með liðinu auk þess að þjálfa liðið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert