Jóhann Gunnar frá til 2016

Jóhann Gunnar Einarsson, Aftureldingu.
Jóhann Gunnar Einarsson, Aftureldingu. Kristinn Ingvarsson

Jóhann Gunnar Einarsson skytta Aftureldingar í Olís-deild karla í handknattleik verður væntanlega ekki klár í slaginn með liðinu fyrr en í fyrsta lagi um áramótin þar sem meiðslin sem hann varð fyrir á öxl í úrslitaeinvígi Aftureldingar gegn Haukum í vor voru mun verri en talið var í fyrstu.

„Það gæti farið svo. Ég fór í aðgerðina með það markmið að láta skafa aðeins af beininu sem er ekkert svakalega stórt en síðan þegar hann (læknirinn) var kominn inn í öxlina var víst allt í rugli. Það var rifin sin og hann þurfti að sauma hana saman sem þýðir að minnsta kosti fjórir mánuðir í það að byrja að kasta ef allt gengur vel,“ sagði Jóhann Gunnar við mbl.is en hann fór í aðgerðina í byrjun júní.

Jóhann hefur hins vegar orðið fyrir sambærilegum meiðslum áður og telur að þetta muni taka aðeins lengri tíma.

„Ég hef lent í atviki í líkingu við þetta og þekki þetta og veit að þetta tekur alltaf lengri tíma. Svona sinavesen tekur sex til átta mánuði. Stefnan er tekin á eftir áramót, því miður,“ sagði Jóhann Gunnar og stefnir á að mæta út á völlinn eftir áramót. Allt annað væri bónus.

„Mig grunaði þetta alltaf af því að þetta var það mikill sársauki. Það var dálítið sjokk þegar maður vaknaði og fékk þær fréttir að að sinin væri rifin. Þá vissi ég að allt tekur miklu lengri tíma og að þetta væru alvarlegri meiðsli,“ sagði Jóhann Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert