Skórnir á hilluna hjá Þóri

Þórir Ólafsson.
Þórir Ólafsson. AFP

Handboltamaðurinn Þórir Ólafsson greinir frá því á Facebook síðu sinni í dag að hann hafi ákveðið að leggja skóna á hilluna frægu.

Þórir lék með Stjörnunni á síðustu leiktíð og var jafnframt aðstoðarþjálfari liðsins en Garðabæjarliðið féll úr úrvalsdeildinni.

Þórir er uppalinn Selfyssingur en fór þaðan til Hauka. Hann hóf atvinnumannaferil sinn árið 2005 með þýska liðinu Lübbecke sem hann lék með í nokkur ár áður en hann gekk í raðir pólska stórliðsins Kielce.

Þórir lék samtals 112 A-landsleiki og skoraði í þeim 277 mörk en hann var ákaflega lunkinn hornamaður.

Þórir skrifar á Facebook síðu sína;

„Nú liggur maður uppi í sófa með bólgið hné eftir aðgerð og hugsar um góðar minningar úr boltanum og allt sem maður hefur áunnið á síðustu árum.

Takk fyrir stuðninginn, kæru vinir, ég held að þetta sé góður tími til að slaufa ferlinum, með einni „loka aðgerð“. Búinn að vera langur og skemmtilegur ferill á nokkrum stöðum. Selfoss-Haukar-Luebbecke-Kielce-Stjarnan... Búinn að eignast marga vini á öllum þessum stöðum og á eftir að sakna þeirra.

Svo má ekki gleyma landsliðinu og öllum þeim snillingum sem maður fékk að umgangast þar. Ég er endalust stoltur að fá tækifæri til að spila fyrir Íslands hönd og hvað þá 112 sinnum...Takk fyrir mig!!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka