Karabatic sakfelldur

Nikola Karabatic slapp með sekt.
Nikola Karabatic slapp með sekt. AFP

Franski handboltamaðurinn, Nikola Karabatic, hefur verið dæmdur sekur fyrir að hafa hagrætt úrslitum í leik í þeim tilgangi að græða vel á veðmálastarfsemi. Dómur féll í Montpellier og þarf Karabatic að greiða 10.000 evrur í sekt, sem samsvarar rétt tæpri 1,5 milljón íslenskra króna.

Um er að ræða leik Ces­son-Renn­es gegn Mont­p­ellier en Karabatic lék með Montpellier og var liðið þegar orðið meistari þegar að leiknum kom sem var í lokaumferð frönsku deildarkeppninnar vorið 2012. Montpellier tapaði leiknum og Cesson-Rennes hélt sæti sínu í deildinni með sigrinum ótrúlega. Óvenju mikið var veðjað á leikinn og það og hin óvæntu úrslit voru kveikjan að rannsókn málsins.

Karabatic, sem er þrefaldur heimsmeistari með Frökkum, slapp við þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og 30.000 evru sekt sem saksóknari krafðist. Alls voru 16 einstaklingar ákærðir, þar af sjö leikmenn, en enginn hlaut fangelsisdóm.

Karabatic hefur leikið með Barcelona síðan leikurinn umdeildi fór fram en á dögunum keypti hann samning sinn hjá félaginu upp og er talið að hann gangi í raðir PSG í Frakklandi í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert