Skýtur ekki af hálfum hug á Hreiðar

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram.
Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram. Eggert Jóhannesson

Fram missti eitt stig í hendurnar á Akureyri þegar liðin mættust í 15. umferð Olís deildar karla í handknattleik í kvöld. Leiknum lyktaði með 26:26 jafntefli, en Fram hafði fimm marka forystu þegar skammt var eftir af leiknum. Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, var svekktur þegar mbl.is náði tali af honum eftir leikinn.

„Ég er hundsvekktur með hvernig málin þróuðust í þessum leik. Við vorum komnir með góð tök á leiknum, en þá gefum við færi á okkur og þeir nýta sér það. Við vorum óskynsamir undir lok leiksins og okkur var refsað fyrir það,“ sagði Guðlaugur súr í samtali við mbl.is eftir leikinn. 

„Hreiðar (Hreiðar Leví Guðmundsson, markvörður Akureyrar) var að verja hjá okkur í dauðafærum og menn verða að skjóta almennilega á svona sterkan leikmann. Það jákvæða sem við tökum úr þessum leik er kaflinn í upphafi seinni hálfleiks þar sem við stjórnum leiknum, en við verðum að skoða hvað fór úrskeiðis hjá okkur undir lok leiksins,“ sagði Guðlaugur enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert