Tuskaður til í hverjum leik

Björgvin Hólmgeirsson skorar fyrir Al Wasl.
Björgvin Hólmgeirsson skorar fyrir Al Wasl. Ljósmynd/Al Wasl

Björgvin Hólmgeirsson er reglulega laminn í spað. Það er hins vegar bara eitthvað sem fylgir því að vera að spila handbolta í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, nánar tiltekið í borginni Dúbaí. Á móti kemur að í gærmorgun gat hann klætt sig í stuttermabol og spilað golf í 30 stiga hita. Á þeim mánuðum sem eru liðnir síðan hann gekk í raðir Al Wasl í sumar hefur hann fengið að kynnast allt annarri menningu en hann er vanur, innan sem utan vallar, og upplifað með fjölskyldu sinni ævintýrið sem hann vonaðist eftir.

„Já, þetta er búið að vera mikið ævintýri,“ sagði Björgvin þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans, hress og kátur eins og hann er vanur. Hann nýtur lífsins á framandi slóðum, í afslöppuðu og hlýju andrúmslofti, en segir það ekki eintómt sældarlíf að vera stjarnan í sínu liði – sú sem sér um að raða inn mörkum leik eftir leik:

„Það er örugglega erfiðara að spila hérna en á mörgum öðrum stöðum. Það er einn atvinnumaður í hverju liði og hann er laminn og tuskaður til í hverjum leik. Við fáum enga vernd. Ef maður segir stakt orð við dómarana er maður sendur af velli. Þetta er svakalegt. Maður kannski gefur frá sér boltann og fær þá högg í bakið. Þetta er „dirty“ handbolti,“ sagði Björgvin, en ofanritaður sá einnig myndband úr leik þar sem Björgvin fékk tvö olnbogaskot í sig í sömu sókninni, án þess að það væri dæmt.

„Leikmennirnir sem ég er að spila með eru ekki jafngóðir og maður er vanur, og það gerir þetta ennþá erfiðara fyrir mig. Ég skoraði einhver 12 mörk í síðasta leik, sem við töpuðum 19:18, og var laminn og laminn. Maður þarf að fara „einn gegn einum“ svona 60 sinnum í leik til að búa eitthvað til og því fylgja högg. Ég fæ til dæmis 3-4 högg í andlitið í hverjum leik. Aðstoðarþjálfarinn kom til mín í síðasta leik og gaf mér góm til að verja tennurnar. Það er ekkert grín,“ sagði Björgvin, léttur yfir þessu öllu saman.

Langt og ítarlegt viðtal við Björgvin má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Þar segir hann meðal annars betur frá lífinu í Dúbaí og vonbrigðum sínum með að vera ekki valinn í landsliðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert