Verðum að skora fleiri mörk

„Úr því að við skoruðum ekki nema 15 mörk þá er vart hægt að reikna með sigri," sagði Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, eftir tap liðsins, 22:15, fyrir Val í Valshöllinni í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Akureyrarliðið skoraði aðeins fjögur mörk í síðari hálfleik og þá kom um tíu mínútna kafli þar sem liðið skoraði ekki mark.

„Mér fannst fyrri hálfleikur vera að mörgu leyti góður. Þá náðum við að stjórna betur hraða leiksins. Í síðari hálfleik misstum við Valsmenn aðeins fram úr okkar. Eftir það kom langur markalaus kafli hjá báðum liðum. Eftir að okkur tókst ekki að nýta þann kafla betur þá reyndist leikurinn okkur erfiður og Valsmenn tóku af skarið í lokin," sagði Sverre sem var án fjögurra sterkra leikmanna, Heiðars Þór Aðalsteinssonar, Hreiðars Levý Guðmundsson,  Brynjars Hólm Grétarssonar og Sigþór Árna Heimissonar.

Nánar er rætt við Sverre á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert