„Réttar ákvarðanir á lokamínútunum“

Eva Björk Davíðsdóttir
Eva Björk Davíðsdóttir mbls.is/Árni Sæberg

Eva Björk Davíðsdóttir átti virkilega góðan leik og skoraði 8 mörk fyrir Gróttu í 25:23 sigri á Fylki í Olís-deildinni í handbolta. 

Grótta er því áfram í toppsæti deildarinnar en lenti í erfiðum leik gegn Fylki. „Fylkir er hörkulið sem er á mikilli uppleið í vetur að mér finnst. Ég er því mjög ánægð með að ná tveimur stigum á móti þeim. Við getum þó klárlega gert betur og þá sérstaklega í vörninni. Þær fengu auðveldlega víti og dauðafæri þrátt fyrir að vörnin hafi verið okkar aðalsmerki,“ sagði Eva þegar mbl.is ræddi við hana á Seltjarnarnesinu í kvöld. 

Grótta var lengst af yfir í leiknum en þó sjaldnast meira en tveimur mörkum eða svo. Fylkir komst yfir þegar innan við tíu mínútur voru eftir en Grótta spilaði betur á lokakaflanum og tryggði sér sigur. „Sóknin var fín í fyrri hálfleik og þá var vörnin ekki góð en mér fannst það snúast svolítið við í síðari hálfleik. Okkur tókst þó að halda haus á lokamínútunum og allar skiluðu sínu hlutverki á þeim kafla. Þá tókum við réttar ákvarðanir,“sagði Eva Björk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert