Vignir bikarmeistari í Danmörku

Vignir Svavarsson.
Vignir Svavarsson. Foto Olimpik

Vignir Svavarsson og félagar í Midtjylland brutu í dag blað í sögu félagsins þegar þeir unnu bikarmeistaratitilinn í Danmörku í fyrsta skipti. Leikið var til úrslita í Óðinsvéum.

Mótherji Midtjylland var GOG en lokatölur urðu 30:26 í miklum spennuleik en staðan var 13:12 í hálfleik.

Midtjylland hafði 10 marka forystu um skeið í seinni hálfleik en GOG náði að minnka forskotið niður í fjögur mörk þegar fimm mínútur eftir og hleypti liðið smá spennu í leikinn. Vignir og félagar stóðust hins vegar pressuna og sigldu titlinum í höfn.

Vignir skoraði þrjú mörk fyrir Midtjylland og lét að vanda til sín taka í vörninni og fékk tvær tveggja mínútna brottvísanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert