Evrópumeistararnir í slæmum málum

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans eru komnir með annan fótinn …
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans eru komnir með annan fótinn í undanúrslitin. JONAS GUETTLER

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska handboltaliðinu Kiel unnu Barcelona 29:24 í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, en leikurinn fór fram í Þýskalandi.

Kiel var með yfirhöndina frá fyrstu mínútu en staðan í hálfleik var 16:12 fyrir þýska liðið. Dominik Klein var óstöðvandi í þýska liðinu en hann var með níu mörk í kvöld. Joan Canellas kom næstur á eftir honum með sex mörk.

Guðjón Valur Sigurðsson átti fremur rólegan leik í horninu en hann gerði aðeins tvö mörk úr tveimur skotum. Barcelona er í ansi erfiðri stöðu fyrir síðari leikinn en liðið þarf að vinna upp fimm marka forskot.

Lokatölur í Kiel í kvöld 29:24 fyrir heimamönnum sem fara fullir sjálfstrausts inn í síðari leikinn en bæði lið berjast um að komast í undanúrslitin sem fara fram í Köln í lok maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert