Alltof mikið af mistökum

„Valsmenn voru bara grimmari í leiknum. Þeir tóku frumkvæðið snemma og héldu því nánast til leiksloka," sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar sem eðlilega var vonsvikinn eftir þriggja marka tap, 26:23, fyrir Val í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld. 

Valur jafnaði þar með metin í rimmu liðanna. Þau hafa nú hvort sinn vinninginn en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslitaleikina um Íslandsmeistaratitilinn. 

„Undir lok fyrri hálfleiks þá fannst mér við vera að ná tökum á leiknum en náðum ekki að fylgja því eftir í byrjun síðari hálfleiks. Auk þessa þá gerðum við alltof mikið af mistökum, töpuðum boltanum til dæmis fimmtán sinnum, þar af fimm sinnum á mjög einfaldan og klaufalegan hátt. Það er ekki boðlegt gegn Val," sagði Einar Andri.

Nokkur hiti var í leiknum og m.a. fékk Jóhann Gunnar Einarsson rautt spjald fyrir það sem að virtist að hann slæmdi hendinni í andlit Ýmis Arnar Gíslasonar. Samkvæmt upptökum í sjónvarpinu þá var um rangan dóm að ræða. „Dómarnir hljóta leiðrétta hafi þeir gert mistök," sagði Einar Andri spurður út í rauða spjaldið.

Gagnrýnir ekki dómarana

„Ég ætla ekki að gagnrýna dómarana að þessu sinni," sagði Einar Andri spurður út þátt dómaranna í leiknum sem mörgum þótti vera nokkuð stór þótt vissulega hafi verið fast tekist á.  „Mínir menn gerðu alltof mikið af mistökum til þess að ég geti farið að benda á dómarana," sagði Einar Andri.

Afturelding lék án Árna Braga Eyjólfssonar og Böðvars Páls Ásgeirssonar í kvöld. Einar Andri segir hugsanlegt að Böðvar verði með í næsta leik liðanna á fimmtudagskvöldið. Hann er svartsýnni á að Árni Bragi taki þátt í þeirri viðureign. „Á laugardaginn leit betur út með Árna en Böðvar en síðar kom í ljós að meiri óvissa ríkir um Árna. Ég reika síður með honum á fimmtudagskvöldið," sagði Einar Andri Einarsson.

Nánar er rætt við  Einar Andra á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert