Bandbrjálaðir með allar klær úti

„Við urðum að spyrna okkur frá veggnum og tókst það, vorum bandbrjálaðir með allar klær úti," sagði Geir Guðmundsson, markahæsti leikmaður Vals með níu mörk, þegar liðið vann Aftureldingu, 26:23, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í kvöld. Valsmenn jöfnuðu þar með rimmu liðanna, hvort þeirra hefur einn vinning, og mætast næst í Valshöllinni á fimmtudagskvöldið.

„Allir þættir í okkar spili voru betri en í fyrsta leiknum á laugardaginn. Menn gáfu aukalega í þennan leik," sagði Geir. 

Nokkur hiti var í leiknum og dómararnir höfðu í mörg horn að líta. Geir sagði það ekki óeðlilegt þegar svo langt er komið í keppninni að það hitni aðeins í mönnum. „Það setur lit á leikina."

Geir gekk vel í leiknum í kvöld og átti auðveldara með að finna leiðir framhjá Davíð Svanssyni markverði Aftureldingar. „Ég lá svolítið yfir upptökum af fyrri leiknum. Það er jafnvíst að Davíð fari vel yfir þennan leik í staðinn," sagði Geir glaður í bragði. 

„Við ætlum ekki að gefa heimaleikjaréttin frá okkur aftur," sagði Geir spurður um næsta leik liðanna sem fram fer á fimmtudagskvöldið.

Nánar er rætt við Geir á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert