Kári fékk eins leiks bann

Kári Kristján Kristjánsson bregst við rauða spjaldinu frá Antoni Gylfa …
Kári Kristján Kristjánsson bregst við rauða spjaldinu frá Antoni Gylfa Pálssyni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kári Kristján Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður ÍBV, var í dag úrskurðaður í eins leiks bann af aganefnd HSÍ.

Hann verður því ekki með Eyjamönnum gegn Haukum í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins á Ásvöllum á föstudagskvöldið, og spilar þar með ekki meira á þessu tímabili nema ÍBV takist að vinna þá viðureign.

Kári þótti sýna ógnandi tilburði þegar hann og Hákon Daði Styrmisson, leikmaður Hauka og fyrrum samherji hans hjá ÍBV, voru báðir reknir af velli í 2 mínútur í leik liðanna í Eyjum. Kári miðað fingri eins og byssu að höfði Hákons og „hleypti af.“ Anton Gylfi Pálsson dómari sýndi Kára umsvifalaust rauða spjaldið.

Í úrskurði aganefndar segir að Kári hafi hlotið útilokun með skýrslu vegna mjög grófrar óíþróttamannslegrar framkomu gagnvart andstæðingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert