Ætlum ekki í frí á þriðjudagskvöld

„Það var ekki erfitt að búa sig undir þennan leik eftir skellinn fyrir Val á fimmtudaginn," sagði Davíð Svansson, markvörður Aftureldingar, en hann átti stórleik í stórsigri Aftureldingar á Val í fjórða undanúrslitaleik liðanna á Íslandsmóti karla í handknattleik að Varmá í dag, 29:16. Þar með hefur hvort lið um sig tvo vinninga og það ræðst í oddaleik á þriðjudagskvöldið á heimavelli Vals hvort liðið leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við þurftum fyrst og fremst að laga hugarfarið fyrir þennan leik og það tókst vel," sagði Davíð. „Við urðum að leggja allt í þennan leik til þess að falla ekki úr keppni.“

Davíð hefur leikið afar vel í þremur af fjórum viðureignum Aftureldingar og Vals í úrslitakeppninni. Hann segir frammistöðuna snúast um dagsformið. „Annað hvort ver maður allt eða ekkert."

„Nú eru bæði liði komin með bakið upp að vegg. Það skilar sér vonandi í skemmtilegum leik á þriðjudaginn. Við ætlum okkur ekki í sumarfrí frá og með næsta þriðjudegi, það er á hreinu," sagði Davíð Svansson, markvörður Aftureldingar.

Nánar er rætt við Davíð á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert