Við vorum bara frábærir

Haukar fagna Íslandsmeistaratitlinum.
Haukar fagna Íslandsmeistaratitlinum. mbl.is/Ofeigur Lydsson

„Það var bara allur pakkinn hjá okkur í þessum leik, jafnt í vörn sem sókn. Við vorum bara frábærir,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, eftir að lið hans hafði unnið Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla að loknum oddaleik við Aftureldingu, 34:31, í Schenker-höllinni á Ásvöllum í gærkvöldi.

Haukar fögnuðu þar með Íslandsmeistaratitlinum í handknattleik karla í ellefta sinn, þar af í tíunda skipti síðan liðsmenn félagsins fögnuðu um leið og þeir kvöddu íþróttahúsið við Strandgötu vorið 2000.

„Ég andaði aldrei rólega þótt forskot okkar væri gott. Aftureldingarliðið sótti hart að okkur í lokin en þeim tókst ekki að vinna niður þá níu marka forystu sem við höfðum tíu mínútum fyrir leikslok,“ sagði Gunnar um gagnsókn Aftureldingar á lokasprettinum þegar forskot Hauka fór úr níu mörkum niður í þrjú áður en Jón Þorbjörn Jóhannsson skoraði sigurmarkið rúmum 20 sekúndum fyrir leikslok, 34:31. „Við vorum rólegri í þessari stöðu sem kom upp í lokin en í fyrri leikjum þessa einvígis.

En hvílíkur vetur og vor hjá okkur. Við vorum frábærir allan veturinn og þessi leikur var spegilmynd vetrarins. Frábær endir á stórkostlegum vetri,“ sagði Gunnar sem tók við Haukum fyrir ári eftir tveggja ára veru hjá ÍBV þar sem hann vann m.a. Íslandsmeistaratitilinn eftir æsilegt einvígi við Hauka vorið 2013.

Sjá fleiri viðtöl og umfjöllun um úrslitaleikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert