Svíar og Rússar í góðri stöðu

Bosníumaðurinn Vladimir Vranjes og Svíinn Jesper Konradsson eigast við í …
Bosníumaðurinn Vladimir Vranjes og Svíinn Jesper Konradsson eigast við í leiknum í dag. AFP

Svíþjóð og Rússland eru komin með annan fótinn á heimsmeistaramót karla í handknattleik í Frakklandi 2017 eftir að hafa unnið umspilsleiki sína nokkuð sannfærandi í dag. Hvíta-Rússland vann þá Lettland, 26:24. Liðin mætast aftur 15. og 16. júní.

Svíþjóð vann Bosníu og Herzegóvínu nokkuð örugglega 27:19 í fyrri leik liðanna í umspili fyrir HM sem fram fór í Växjö í dag. Svíar voru 12:9 yfir í hálfleik en náðu svo að auka forystu sína og vinna nokkuð þægilega. Fredrik Rahhauge Petersen var með sex mörk fyrir Svía á meðan Nikola Prce var með 9 mörk fyrir Bosníu.

Rússland vann Svartfjallaland 29:22 á sama tíma i Moskvu. Sigur Rússa var í raun aldrei í hættu, liðið var með fjögurra marka forystu í hálfleik og hélt henni út leikinn. Sergei Shelmenko var með sjö mörk fyrir Rússland. Vasko Sevaljevic gerði sjö mörk fyrir Svartfjallaland.

Hvíta-Rússland vann Lettland 26:24 í Minsk. Leikurinn var hnífjafn en staðan í hálfleik var 13:13. Heimamenn náðu að vinna leikinn með tveimur mörkum og því ljóst að það verður mikil spenna í síðari leiknum í Lettlandi.

Síðari leikirnir fara fram 15. og 16. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert