Rúnar þjálfar í bestu deild heims

Rúnar Sigtryggsson ræðir við lærisveina sína hjá Aue.
Rúnar Sigtryggsson ræðir við lærisveina sína hjá Aue. Ljósmynd/Aue

Handboltaþjálfarinn Rúnar Sigtryggsson er óvænt hættur sem þjálfari þýska 2. deildarliðsins Aue, sem hann hefur stýrt síðastliðin fjögur ár.

Þetta kemur fram á vef Handball World en þar segir að Rúnar hafi farið fram á það að fá samningi sínum við Aue rift til að taka við félagi í efstu deild Þýskalands, sem talin er sterkasta landsdeild í heimi.

Ekki kemur fram hvaða félagi Rúnar mun taka við þar en bent er á að Balingen ætli að kynna nýjan þjálfara í dag. Balingen varð í 14. sæti af 18 liðum í 1. deildinni í vetur, fimm stigum frá fallsæti.

„Við þökkum Rúnari fyrir frábært starf síðustu fjögur ár, þar sem hann hefur stýrt liðinu fram veginn, og óskum honum góðs gengis í 1. deildinni með sínu nýja félagi,“ sagði Lutz Lorenz, formaður Aue.

Aue hafnaði í 7. sæti þýsku 2. deildarinnar í vetur. Með liðinu léku Árni Þór Sigtryggsson, bróðir Rúnars, og Sigtryggur Daði Rúnarsson, sonur þjálfarans, sem og landsliðsmaðurinn Bjarki Már Gunnarsson og markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson. Sveinbjörn ákvað fyrir nokkru að flytja heim til Íslands í sumar og leika með Stjörnunni í Olís-deildinni á næsta keppnistímabili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert