Tap en enn er möguleiki á undanúrslitum

Gísli Þorgeir Kristjánsson kominn í skotfæri í leiknum í dag. …
Gísli Þorgeir Kristjánsson kominn í skotfæri í leiknum í dag. Hann skoraði átta mörk í leiknum. Hér er eitt þeirra í uppsiglingu. Ljósmynd/JóiG

Landslið Íslands í handknattleik karla, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, tapaði í dag fyrir Serbum í sveiflukenndum fyrsta leik sínum í milliriðlakeppni Evrópumótsins í Króatíu, 36:31. Þrátt fyrir tapið í dag er ekki öll nótt úti um að liðið komist í undanúrslit mótsins en til þess þarf það að minnsta kosti sex marka sigur á þýska landsliðinu á morgun. Einnig verða Króatar að vinna Serba. 

Erfiðlega gekk að finna netmöskvana í byrjun leiks og lentu strákarnir því snemma undir. Þrátt fyrir það komst jafnvægi á leik liðsins eftir því sem leið á hálfleikinn, hálfleikstölur 19:14, Serbum í hag.

Strákarnir komu virkilega einbeittir til leiks í seinni hálfleik og náðu tvisvar að minnka muninn í eitt mark, en allt kom fyrir ekki. Serbarnir spiluðu grimma vörn og refsuðu jafnharðan með hraðaupphlaupum. Að lokum höfðu þeir aftur náð fyrri forystu, lokatölur 36:31 Serbum í vil.

Mörk Íslands: Teitur Örn Einarsson 9, Gísli Þorgeir Kristjánsson 8, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 4, Kristófer Sigurðsson 3, Alexander Másson 2, Elliði Snær Viðarsson 1, Sveinn Jóhannsson 1, Arnar Freyr Guðmundsson 1, Jóhann Kaldal Jóhannsson 1, Sveinn Sveinsson 1.

Andri Scheving varði 7 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 2.

Teitur Örn Einarsson að skora úr einu af vítaköstum sínum …
Teitur Örn Einarsson að skora úr einu af vítaköstum sínum í leiknum við Serba í dag. Ljósmynd/JóiG
Kristófer Sigurðsson í þann mund að skora eitt þriggja marka …
Kristófer Sigurðsson í þann mund að skora eitt þriggja marka sinna gegn Serbum í dag. Ljósmynd/Jói G
Varnarmenn íslenska landsliðsins taka hressilega á móti skyttu Serba.
Varnarmenn íslenska landsliðsins taka hressilega á móti skyttu Serba. Ljósmynd/JóiG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert