Arnar biðst afsökunar

Arnar Birkir Hálfdánarson var öflugur í liði Fram í dag.
Arnar Birkir Hálfdánarson var öflugur í liði Fram í dag. Eggert Jóhannesson

Það var mikill hiti í Framhúsinu er Fram sigraði Akureyri 29:28 í Olís-deild karla í handknattleik í dag en á lokamínútunni fékk Arnar Birkir Hálfdánarson að líta rauða spjaldið í liði Fram.

Þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum var Fram marki yfir og manni færri. Sigurður Örn Þorsteinsson og Elías Bóasson fengu tvær mínútur undir lokin og voru þeir því færri síðustu mínútuna.

Akureyringar áttu sókn þegar fjórar sekúndur voru eftir en Tomas Olason kastaði þá boltanum fram og greip Arnar Birkir boltann. Hann þrumaði síðan knettinum upp í stúku við litla hrifningu stuðningsmanna gestanna. Stuðningsmennirnir misstu sig og sauð allt upp úr.

Arnar biðst afsökunar á atvikinu en hann taldi að leiktíminn hafi verið búinn.

„Ég greip boltann og á þessu augnabliki taldi ég að leiktíminn væri úti og fyrstu viðbrögð í hita leiksins voru að kasta boltanum upp í stúku. Ég vil biðja áhorfendur og fyrst og fremst stuðningsmenn Akureyringa afsökunar á þessu,“ sagði Arnar Birkir við mbl.is eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert