Sendum skilaboð með þessum sigri

Rakel Dögg Bragadóttir var öflug fyrir Stjörnuna i sigri liðsins …
Rakel Dögg Bragadóttir var öflug fyrir Stjörnuna i sigri liðsins gegn ÍBV í dag. Eggert Jóhannesson

Halldór Ingólfsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handbolta, var að vonum kampakátur með 40:30 sigur sinna stelpna á ÍBV í Olísdeild kvenna í handbolta í dag.

„Þetta var mjög góður og kærkominn sigur. Við stefndum á að koma okkur í efri hlutann og þar ætlum við að halda okkur. Þá sendum við ákveðin skilaboð með þessum örugga sigri. Það kemur enginn í Garðabæinn og fær neitt gefins,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is, eftir leik.

Breidd Stjörnuliðsins er gríðarleg sem sést best á því, að þrettán leikmenn sáu um að skora mörkin fjörutíu, sem Stjarnan skoraði í leiknum. Þar af skoruðu báðir markverðir liðsins, Heiða Ingólfsdóttir og Hafdís Lilja Torfadóttir, sitt markið hvor, með því að kasta boltanum yfir endilangan völlinn, í tómt Eyjamarkið.

Leikmannahópurinn þéttur og góður

Það er mjög góð breidd hjá okkur og við erum líka að nýta hana vel. Það er alveg sama hver kemur inn á, því þær sem eru á bekknum eru svo öflugar. Svo eigum við bara eftir að verða betri og betri, því Þorgerður Anna Atladóttir er að komast smátt og smátt inn í þetta. Það var fínt fyrir hana að fá að spila mikið í dag, því leikurinn þróaðist ágætlega fyrir okkur. Við náðum fljótlega upp forskoti, sem gerði okkur kleift að dreifa álaginu,” sagði Halldór um leikmannahóp Stjörnunnar. 

Eftir þrjá sigurleiki í röð hefur Stjarnan náð að klífa upp töfluna og sitja Garðbæingar nú í þriðja sæti deildarinnar. Í næstu tveimur umferðum á Stjarnan svo leiki gegn tveimur neðstu liðum deildarinnar, Selfossi og Fylki. Miðað við spilamennsku Stjörnunnar í dag mætti ætla að tveir öruggir sigurleikir væru fram undan, en Halldór kvað svo ekki vera.

„Við lítum alls ekki svo á, að þessir leikir gegn Selfossi og Fylki verði eitthvað auðveldir fyrir okkur. Við tökum bara einn leik fyrir í einu og ef við leggjum okkar allar fram í hvert einasta verkefni, eins og við gerðum í dag, þá erum við til alls líklegar,“ sagði Halldór um framhaldið hjá Stjörnunni.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert