„Það fór svolítið um mig“

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram. Eggert Jóhannesson

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari karlaliðs Fram í handknattleik, var að vonum sáttur eftir 29:28 sigur liðsins á Akureyri í 7. umferð Olís-deildar karla í dag. Hann var ánægður með karakterinn undir lokin.

„Við náðum í sigur, mikilvæg tvö stig. Mér er alveg sama hvernig við náum í þau,“ sagði Guðmundur við mbl.is.

„Allt of mikið af mistökum á báða bóga. Þetta var þannig leikur, við vissum alveg út í hvað við vorum að fara. Mikil slagsmál og mikil læti og það endaði okkar megin í dag.“

Fram var þremur mörkum yfir í hálfleik en þá hélt Guðmundur að boltinn væri farinn að rúlla og sigur í vændum.

„Ég hélt að þetta væri að detta inn í fyrri hálfleik þegar við vorum þremur mörkum yfir og eins í seinni hálfleik en þeir voru drulluseigir. Þeir byrja að taka mann á mann og það kemur panic í mína menn sem voru færri, svo erum við tveimur færri og það gerir menn stressaða.“

Valtýr Már Hákonarson kom inn í markið síðustu tíu mínúturnar og varði mikilvæga bolta en Guðmundur var sáttur með hann.

„Valtýr varði 2-3 mjög mikilvæga bolta sem okkur vantaði. Um leið og það kom þá náðum við þessum mörkum,“ sagði Guðmundur enn fremur.

„Ég hélt að þetta væri búið en þá kemur leikhlé. Boltinn er í loftinu og það kemur leikhlé, svo ég viðurkenni að það fór svolítið um mig,“ sagði Guðmundur í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert