Einar með Haukum í Evrópuleiknum?

Einar Pétur Pétursson
Einar Pétur Pétursson mbl.is/Styrmir Kári

Hornamaðurinn Einar Pétur Pétursson, sem nú er búsettur í Danmörku, æfði með Haukum í Svíþjóð í gær og gæti verið í hópnum í Evrópuleiknum gegn Alingsås í dag. 

Einar er fluttur til Danmerkur en hefur ekki fundið sér lið þar og er því enn félagsbundinn Haukum. 

Frá þessu er greint á netmiðlinum Fimmeinn.is en þar segist Einar hafa æft með þremur liðum að undanförnu og því gæti ef til vill eitthvað gerst í hans málum á næstunni. 

Hornamaðurinn efnilegi Hákon Daði Styrmisson meiddist á dögunum og verður frá næstu vikurnar. Einar gæti því nýst Haukum vel í dag en hann tók þátt í tveimur leikjum í Olís-deildinni í upphafi tímabils. 

Fyrri leik liðanna í Hafnarfirði lauk með jafntefli og eru Haukar því í nokkuð erfiðri stöðu að þurfa að vinna útileikinn gegn sænska liðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert