Vujovic rekinn frá Zagreb

Veselin Vujovic.
Veselin Vujovic.

Veselin Vujovic, handknattleiksþjálfarinn gamalkunni og fyrrverandi stórskytta, hefur verið rekinn úr starfi sem þjálfari króatíska félagsins PPD Zagreb.

Vujovic, sem er 55 ára gamall, tók við liði Zagreb fyrir tveimur árum og gekk vel, vann góða sigra gegn mörgum af sterkustu liðum Evrópu og varð króatískur meistari bæði 2015 og 2016 undir hans stjórn. Það telst reyndar ekki til tíðinda því félagið hefur einokað króatíska meistaratitilinn í 25 ár og unnið hann samfleytt frá 1992.

Slæm byrjun á þessu tímabili varð Vujovic að falli en liðið hefur tapað fjórum leikjum í haust.

Vujovic var á sínum tíma lykilmaður í gríðarsterku landsliði Júgóslavíu sem varð Ólympíumeistari 1984 og heimsmeistari 1986. Þá varð hann tvívegis Evrópumeistari með Metaloplastika Sabac sem var besta félagslið Evrópu um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert