Jafntefli í toppslag - Þróttur vann KR

Fanney Þóra Þórsdóttir skoraði þrjú marka FH í kvöld.
Fanney Þóra Þórsdóttir skoraði þrjú marka FH í kvöld. mbl.is/Golli

FH og HK gerðu jafntefli, 19:19, í lokaleik 5. umferðar í 1. deild kvenna í handbolta í kvöld. Tveir leikir fóru fram í 1. deild karla.

FH, sem gerði einnig jafntefli við KA/Þór á laugardag og er taplaust, komst með stiginu upp í efsta sæti deildarinnar en liðið er með 8 stig líkt og ÍR. HK er í 3. sæti með 7 stig. Laufey Lára Höskuldsdóttir var markahæst hjá FH með sjö mörk en Arndís Sara Þórsdóttir, Fanney Þóra Þórsdóttir og Sara Kristjánsdóttir skoruðu 3 mörk hver. Hjá HK skoraði Sigríður Hauksdóttir 5 og Elva Arinbjarnar 4.

Hitaleikur hjá Þrótti og KR

Í 1. deild karla vann Þróttur sigur á KR, 28:25, í leik sem virðist hafa verið talsverður hitaleikur, en rauða spjaldið fór þrisvar á loft. KR var 13:12 yfir í hálfleik en Theodór Ingi Pálmason fékk sína þriðju brottvísun á 41. mínútu, og Andri Berg Haraldsson lauk leik á 51. mínútu. Í millitíðinni var Þróttaranum Ólafi Guðna Eiríkssyni vísað af velli, en hann var þriðji leikmaðurinn sem fékk þrjár tveggja mínútna brottvísanir í leiknum. Þá fengu þjálfarar beggja liða áminningu á 43. mínútu.

Guðni Semsen Guðmundsson var markahæstur hjá Þrótti með 8 mörk en Bergur Elí Rúnarsson markahæstur KR, einnig með 8 mörk. Þróttur er í 4. sæti með 7 stig en KR er með 4 stig í 5. sæti.

HK vann svo ungmennalið Vals á útivelli, 27:26, og er í 2. sæti deildarinnar með 8 stig. Valsmenn eru með 4 stig.

Elías Björgvin Sigurðsson var markahæstur hjá HK með 10 mörk en Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði 7 fyrir Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert