HK á toppinn - Fyrsta tap FH

HK hafnaði í 9. sæti Olís-deildarinnar í fyrra og færðist …
HK hafnaði í 9. sæti Olís-deildarinnar í fyrra og færðist niður í 1. deild við skiptinguna í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölnir varð í kvöld fyrst liða til að vinna FH í 1. deild kvenna í handbolta á leiktíðinni, og það af miklu öryggi. HK komst á toppinn.

Fjölniskonur unnu níu marka sigur á FH í Grafarvogi, 28:19, eftir að hafa verið 12:10 yfir í hálfleik. FH hafði farið taplaust í gegnum fimm fyrstu leiki sína og er með 8 stig, líkt og Fjölnir nú og ÍR sem á leik til góða við Aftureldingu á morgun og getur farið á toppinn með sigri.

Kristín Lísa Friðriksdóttir var markahæst Fjölnis með 9 mörk en Laufey Lára Höskuldsdóttir skoraði 8 fyrir FH.

Meiri spenna var í hinum leik kvöldsins þegar HK vann Víking, 29:27, eftir að hafa verið 14:12 undir í hálfleik.

HK fór með sigrinum í efsta sæti deildarinnar með 9 stig en Víkingur er með 4 stig í 6. sæti.

Sigríður Hauksdóttir var markahæst hjá HK með 7 mörk, og þær Tinna Sól Björgvinsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoruðu 6 mörk hvor. Alina Molkova skoraði næstum helming marka Víkings eða 13 mörk, en Sigríður Rakel Ólafsdóttir skoraði 6.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert