Sáttir en viljum alltaf meira

Arnar Birkir Hálfdánsson, leikmaður Fram, og Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari …
Arnar Birkir Hálfdánsson, leikmaður Fram, og Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram var að sjálfsögðu mjög ánægður með 31:27 sigur sinna manna á Stjörnunni í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. 

Sjá frétt mbl.is: Sannfærandi sigur Fram á Stjörnunni

„Þetta var góður sigur og tvö góð stig. Við héldum áfram allan tímann eins og lagt var upp með. Ég er mjög sáttur."

Jafnræði var með liðunum fyrstu 20 mínúturnar en þá tók við góður kafli Fram. Þeir náðu fjögurra marka forystu sem þeir létu aldrei af hendi. 

„Þetta kom um leið og við náðum að loka á nokkrar línusendingar hjá þeim og fengum markvörslu, þá fór þetta í gang og það hélt áfram út allan leikinn."

„Leikgleðin og vörn, alvöru varnarleikur skilar sigrum. Við erum búnir að liggja yfir varnarleiknum hjá þeim og vorum búnir að setja upp ákveðin kerfi sem gengu fullkomlega upp í dag."

Margir spáðu Frömurum afleitu gengi í vetur enda leikmannahópurinn mikið breyttur og kominn nýr þjálfari. Framarar eru hins vegar um miðja deild og hafa unnið fjóra af níu leikjum sínum. Guðmundur er sáttur en vill á sama tíma meira. 

„Við erum sáttir en við viljum alltaf meira. Við erum ekki hættir, við höldum áfram eins langt og við getum. Við tökum einn leik í einu, gefum okkur alla í þetta og það kemur í ljós hvað það mun skila mörgum stigum," sagði Guðmundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert