Haukar voru stálheppnir

Adam Haukur Baumruk, Haukum, sækir að Arnari Birki Hálfdánssyni og …
Adam Haukur Baumruk, Haukum, sækir að Arnari Birki Hálfdánssyni og Þorsteini Gauta Hjálmarssyni, leikmönnum Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar sluppu fyrir horn þegar þeir mættu Fram í Framhúsinu í kvöld í 14.umferð Olís-deildar karla í handknattleik. Þeir unnu með tveggja marka mun, 32:30, eftir að síðari hálfleikur hafði verið í járnum og Janus Daði var stálheppinn að vinna boltann þegar 15 sekúndur voru til leiksloka og skora sigurmarkið. Haukar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17:15.

Þetta var sjöundi sigur Hauka í röð í deildinni og vafalaust sá torsóttasti. Framarar eru í næst neðsta sæti eftir fimm tapleiki í röð.

Haukar byrjuðu leikinn af talsverðum krafti jafnt í vörn sem sókn og náðu mest sex marka forskoti, 13:7. Leikmenn Fram sóttu í sig veðrið eftir því sem á fyrri hálfleikinn leið, ekki síst í sókninni sem var slök framan af.  Grétar Ari Guðjónsson var maður fyrri hálfleiks. Hann varði 13 skot, þar 10 á fyrstu 20 mínútum hálfleiksins. Þegar upp var staðið að fyrri hálfleik loknum þá var hann maðurinn á bak við naumt forskot Hauka, 17:15, þegar flautað var til hálfleiks.

Fram jafnaði leikinn snemma í síðari hálfleik, 18:18 og 20:20, áður en liðið komst yfir. Haukar jöfnuðu metin en Fram-liðið gaf ekkert eftir. Leikurinn var í járnum þar sem baráttan réði ríkjum á kostnaði gæðanna, enda hvorugt liðið að velta þeim fyrir sér heldur að ná stigunum tveimur.

Haukar náðu þriggja marka forskoti þegar fimm mínútur voru til leiksloka og virtust vera að sigla sigrinum í höfn. En raunin varð önnur Framarar gerðu gagnsókn og minnkuðu muninn í eitt mark, 31:30, þegar hálf mínúta var eftir. Eftir leikhlé hófu Haukar sókn þar sem þeir höfðu nærri tapað boltanum þegar 15 sekúndur voru eftir. Janus Daði Smárason kastaði sér á eftir boltanum og tókst að innsigla sigurinn þegar níu sekúndur voru til leiksloka, 32:30. Tæpara gat það vart verið.

 Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Fram 30:32 Haukar opna loka
60. mín. Haukar tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert