Igor til bjargar þegar allt virtist ætla í klessu

Andri Snær Stefánsson.
Andri Snær Stefánsson. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Andri Snær Stefánsson, fyrirliði Akureyringa í handbolta, var í viðtali um daginn og var gorgeir í honum. Þá hafði liðið náð jafntefli gegn FH og var kappinn stóryrtur, sagði þetta bara byrjunina á góðu gengi.

Kallinn er búinn að standa við sitt því Akureyringar hafa ekki tapað leik síðan og eru loks komnir úr fallsæti. Akureyringar spiluðu enn einn háspennuleikinn í kvöld þegar Selfoss kom í heimsókn. Vann norðanliðið 25:23 eftir svakalega spennandi lokakafla.

Andri Snær var á þönum eftir leik en gaf sig á smáspjall. „Þetta var bara enn einn spennuleikurinn og við höfum verið að klúðra aðeins í jöfnum leikjum. Nú stóðumst við pressuna og Minde [Mindaugas Dumcius] kláraði leikinn með stæl. Það var frábært að fagna sigri hér fyrir framan okkar áhorfendur sem hafa stutt okkur, alveg sama hvað við höfum átt erfitt. Það er líka gaman að sjá nýja leikmenn koma sterka til leiks. Igor [Kopyshynskyi] var flottur í restina og bjargaði okkur þegar allt virtist vera að fara í klessu,“ sagði Stálmúsin.

„Nú er bara bikarleikur gegn FH á mánudaginn og við stefnum á sigur í þeim leik,“ sagði Andri Snær hress í bragði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert