Allt loft úr okkur mjög fljótt

Stefán Árnason, þjálfari Selfyssinga.
Stefán Árnason, þjálfari Selfyssinga. mbl.is/Golli

„Það var lítið í gangi hjá okkur og vantaði allan anda. Það var rosalega dauft yfir okkur,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, sem fékk skell á heimavelli gegn FH í Olísdeildinni í kvöld, 24:35.

„Þeir komust í 3:0 og 5:1 og við komumst aldrei inn í leikinn og allt í einu er forskotið bara komið í tíu mörk og game over!“ sagði Stefán í samtali við mbl.is eftir leik. 

„Ég hef ekki skýringar á þessu. Við æfðum vel á milli leikja og það hefur verið gífurlegur kraftur á æfingum. En í kvöld var allt loft úr okkur mjög fljótt. FH-ingarnir voru grimmir og létu finna fyrir sér á meðan við gerðum ekkert í vörninni og ef við náðum fríkasti þá vorum við yfirleitt reknir út af þannig að það var ekki mikið vit í því sem við vorum að gera þar,“ sagði Stefán enn fremur. 

Varnarleikurinn hefur gengið upp og ofan hjá Selfyssingum í vetur en þeir hafa ekki náð að standa vörnina nógu vel í síðustu leikjum. Stefán er sammála því.

„Vörnin hefur verið slök í síðustu leikjum. Hún hefur verið góð á köflum í vetur en FH-ingarnir voru klókir í kvöld og við vorum lengi að lesa hvað þeir voru að gera og náðum okkur aldrei í þennan baráttuhug. Það voru einföld atriði að fara úrskeiðis í vörninni og við hefðum viljað vera miklu betri varnarlega um þessar mundir,“ sagði Stefán að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert