Ísland er nágrannaþjóðum töluvert að baki

Íslenska karlalandsliðið er í níunda sæti í Evrópu.
Íslenska karlalandsliðið er í níunda sæti í Evrópu. mbl.is/Golli

Evrópska handknattleikssambandið birtir á heimasíðu sinni í dag styrkleikalista aðildarsambanda sinna fyrir árið 2016. Þar kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Fá þjóðir stig fyrir árangur sinn í karla- og kvennaflokki. Karlamegin eru það EM, auk lokakeppna hjá U20 og U18 ára landsliðum þjóðanna. Ísland er í níunda sæti í karlaflokki, en þar eru Þjóðverjarnir hans Dags Sigurðssonar á toppnum.

Kvennamegin er það einnig EM auk heimsmeistaramóta U20 og U18 ára landsliða sem gefa stig. Ísland er í 24. sæti í kvennaflokki, en efst er lið Norðmanna undir stjórn Þóris Hergeirssonar.

Þegar tekin eru saman heildarstig er Ísland í 15. sæti, eins og árið 2015, miðað við aðildarsambönd EHF með alls 208 stig – 164 karlamegin og 44 kvennamegin. Þýskaland er á toppnum í heildina með 520 stig.

Þegar litið er til nágrannaþjóða okkar og þeirra þjóða sem við berum okkur helst saman við má sjá að munurinn er töluverður.

Á heildarstigalistanum eru Danmörk, Svíþjóð og Noregur öll á meðal efstu átta þjóðanna. Gildir það á öllum vígstöðvum, karla- og kvennamegin sem og í heildarniðurstöðunni.

Í kvennaflokki eru Noregur og Danmörk til að mynda í efstu tveimur sætunum og eru það einnig á heildarstigalistanum. Svíar eru í áttunda sæti á öllum þremur listunum.

Rýna má frekar í niðurstöðurnar HÉR

Íslenska kvennalandsliðið er í 24. sæti í Evrópu.
Íslenska kvennalandsliðið er í 24. sæti í Evrópu. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert