Tímabilinu lokið hjá Hreiðari Levý

Hreiðar Levý Guðmundsson í búningi Halden.
Hreiðar Levý Guðmundsson í búningi Halden. Ljósmynd/haldentopp.no

Hreiðar Levý Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í handbolta, mun ekki geta leikið meira á þessu tímabili með liði sínu Halden í norsku úrvalsdeildinni.

„Hreiðar meiddist í hné í haust og glímdi við þau meiðsli í síðustu leikjunum fyrir jól. Bæði hann og við vonuðumst til þess að hvíld og undirbúningstími myndi hjálpa, en sú varð ekki raunin,“ sagði Jonas Wille, þjálfari Halden, við Halden Arbeiderblad.

„Þetta er mikil synd. Við lögðum hart að okkur til að fá Hreiðar til félagsins og hann hefur komið með fagmennsku í liðið. Í fyrstu leikjunum, áður en hann meiddist, sýndi hann líka mjög góða frammistöðu,“ sagði Wille.

Hreiðar Levý, sem er 36 ára gamall og var í liði Íslands sem vann silfur á Ólympíuleikunum 2008 og brons á EM 2010, kom til Halden í sumar frá Akureyri. Hann hefur boðist til að þjálfa markverði hjá Halden og aðstoða markverði liðsins, en félagið hefur hafið leit að nýjum markverði.

„Ég fann það snemma í desember að eitthvað væri að í hnénu. Ég hef reynt að styrkja vöðvana í kringum hnéð en þetta versnaði bara. Það er eitthvað að í hnénu og ég er því miður viss um að þetta sé eitthvað sem krefst aðgerðar,“ sagði Hreiðar Levý.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert