„Fyllilega verðskuldaður sigur“

Alfreð Gíslason á hliðarlínunni í gærkvöld.
Alfreð Gíslason á hliðarlínunni í gærkvöld. Ljósmynd/eurohandball.com

Ungverska meistaraliðið Veszprém, án Arons Pálmarssonar, fagnaði sínum fyrsta sigri frá upphafi í Sparkassen höllinni í Kiel í gærkvöld þegar liðin áttust við í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Veszprém hrósaði sigri, 27:25, og tókst þar með að vinna í Kiel í fyrsta skipti í sex tilraunum.

„Sigur Veszprém var fyllilega verðskuldaður því það var betra liðið í þessum leik. Eftir góða byrjun vorum við ekki nógu góðir í varnarleiknum. Við vorum of veikir,“ sagði Alfreð eftir leikinn en liðin höfðu sætaskipti. Kiel er í fimmta sætinu með 11 stig eins og Flensburg en Veszprém er með 12 stig í þriðja sætinu.

„Það skiptir ekki máli hvort við endum í fjórða eða fimmta sætinu. Við munum örugglega fá erfiðan mótherja í sextán liða úrslitunum. Á síðasta tímabili mættum við sigurliðinu í riðlinum, Barcelona, í átta liða úrslitunum en fórum samt í Final Four í Köln svo það er allt mögulegt,“ sagði Alfreð, sem gengur með hækjur þessa dagana eftir aðgerð sem hann gekkst undir á hné fyrir skömmu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert