„Ég náði að nota reiðina“

Jóhann Birgir Ingvarsson (t.v.) lék vel í kvöld.
Jóhann Birgir Ingvarsson (t.v.) lék vel í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við ákváðum fyrir leikinn að setja tóninn fyrir final four-bikarhelgina og vera ekkert að slugsa neitt. Við gerðum það svo sannarlega,“ sagði FH-ingurinn Jóhann Birgir Ingvarsson, sem skoraði 10 mörk í 35:25 sigri liðsins gegn Stjörnunni í Olísdeild karla.

„Við spiluðum mjög góða vörn. Freysi, Jói og Gústi [Arnar Freyr Ársælsson, Jóhann Karl Ingvarsson og Ágúst Birgisson] voru að spila mjög vel á móti þessum stóru jökum sem þeir eru með. Svo er það eiginlega Óðinn [Þór Ríkharðsson] sem slátrar þeim þegar þeir bakka ekki í vörnina. Svo spilum við bara skynsamlega og það er að virka mjög vel hjá okkur eftir áramót.“

FH hefur unnið alla leiki sína á nýju ári og því ekki úr vegi að velta fyrir sér hvort menn hafi æft duglega í jólafríinu.

„Það var ekki mikið jólafrí,“ segir Jóhann brosandi. „Það voru bara æfingar og aftur æfingar. Við nýttum því fríið mjög vel. Í kvöld voru strákarnir að dreifa boltanum mjög vel og teygja á vörninni þeirra. Það verður því veisla fyrir mig en mér finnst mjög gott að fara einn á einn í sókninni.“

Jóhann Birgir komst í fréttirnar fyrir tæpum tveimur árum þegar hann féll á lyfjaprófi. Hann segir þá erfiðu reynslu hafa í raun hjálpað sér.

„Það mál hefur styrkt mig. Það var eiginlega þannig þegar þetta gerðist að ég hefði getað hætt í handbolta og látið þetta sigra mig en ég ákvað í staðinn að nota þessa reiði sem blossaði upp í mér. Ég var reiður og fannst þetta allt saman mjög leiðinlegt en náði að nota þær tilfinningar til að koma mér aftur í gang. Ég er ánægður með það í dag,“ sagði tíu marka maðurinn Jóhann Birgir Ingvarsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert