Snillingar að koma okkur í vandræði

Lárus Gunnarsson, markvörður Gróttu.
Lárus Gunnarsson, markvörður Gróttu. mbl.is/Styrmir Kári

Lárus Gunnarsson, markvörður Gróttu, var glaður í bragði eftir sigurinn á Akureyri í kvöld, 25:23, á heimavelli í Olís-deild. Hann átti stórleik, varði 18 skot, auk þess sem Grótta vann tvö mikilvæg stig í botnbaráttu deildarinnar.

„Þetta var sætur sigur en hann hefði mátt vera þægilegri. Litlu mátti muna að sigurinn gengi okkur úr greipum. Við verðum að skoða vel og fara yfir hvað gerðist síðustu tíu mínúturnar. Hver leikur skiptir miklu máli,“ sagði Lárus í samtali við mbl.is í kvöld.

„Stigin er mikilvæg og sigurinn er góður. Við megum hinsvegar ekki fagna of mikið því það er svo stutt á milli í deildinni. Við getum þess vegna tapað tveimur leikjum í röð og Akureyri unnið tvo leiki á sama tíma. Þá verður allt komið í hnút á nýjan leik,“ sagði Lárus og bætir við að það sér rannsóknarefni hversu algengt það er að Gróttuliðið gloprar góðu forskoti niður í leikjum sínum. Það hafi t.d. gerst gegn Aftureldingu í bikarleik um síðustu helgi, gegn Haukum í deildinni á dögunum og í fleiri viðureignum liðsins.

„Gunni þjálfari sagði að við værum snillingar í að koma okkur í vandræði. Það er mikið til í því hjá honum,“ sagði Lárus. „Kosturinn er kannski sá að getan er fyrir hendi í liðinu. Vandinn er ekki sá að við séum lélegir í handbolta.“

Lárus hefur átt nokkra afar góða leiki í marki Gróttu upp á síðkastið. „Þegar við byrjum leikina af fullum krafti í vörninni þá nær maður að hrökkva í gang strax í upphafi. Það hefur mikið að segja,“ sagði Lárus Gunnarsson, annar markvörður Gróttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert