„Þetta var tæpt en nóg“

Sólveig Lára Kjærnested, Stjörnunni.
Sólveig Lára Kjærnested, Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var tæpt en nóg,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested, fyrirliði Stjörnunnar, eftir að liðið vann nauman sigur, 24:23, á Haukum í Olís-deild kvenna í handknattleik í TM-höllinni í Garðabæ í dag. Með sigrinum komst Stjarnan á topp deildarinnar, hefur 27 stig og er tveimur stigum á undan Fram sem á leik til góða við Gróttu annað kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi á lokamínútunum í TM-höllinni en það var markvörður Stjörnunnar, Hafdís Lilja Renötudóttir, sem tryggði liðinu bæði stigin þegar hún varði skot frá Guðrúnu Erlu Bjarnadóttur, leikmanni Hauka, á síðustu sekúndum viðureignarinnar.

„Við áttum í erfiðleikum með að skora framan af síðari hálfleik. Útlitið var ekki bjart um tíma. Haukaliðið komst á siglingu,“ sagði Sólveig en Stjarnan varð þremur mörkum undir um skeið eftir góðan lokakafla í fyrri hálfleik og fínan upphafskafla Hauka í síðari hálfleik.

„Við fórum ekkert á taugum heldur tókum eina vörn í einu og eina sókn í einu. Hægt og bítandi skilaði það sér hjá okkur. Vörnin batnaði og loksins þegar við náðum að brjóta ísinn á ný og byrja að skora þá unnum við okkur inn í leikinn aftur,“ sagði Sólveig.

„Hafdís varði mikilvæg skot í leiknum og var reyndar bara alveg frábær, ekki  síst í lokin.“

Stjarnan er komin í efsta sæti deildarinnar og fram undan er áframhaldandi kapphlaup við Fram um deildarmeistaratitilinn. „Við eigum ekkert annað en úrslitaleiki eftir í deildinni. Þetta var hörkuleikur og góður undirbúningur fyrir næstu leiki,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested en hún og félagar eiga næst að mæta Selfossi í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins á fimmtudaginn í Laugardalshöllinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert