Enn og aftur fá Anton og Jónas stórleik

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson handknattleiksdómarar.
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson handknattleiksdómarar. mbl.is/Golli

Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson hafa fengið úthlutað enn einum stórleiknum í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla á þessari leiktíð. Þeirra bíður nú viðureign í Kiel í Þýskalandi sunnudaginn 5. mars.

Þann dag dæma þeir félagar viðureign THW Kiel, sem Alfreð Gíslason þjálfar, og spænsku meistaranna Barcelona á heimavelli Kiel. Leikurinn verður liður í A-riðli keppninnar. 

Kiel og Barcelona eru tvö af sigursælustu félagsliðum Evrópu í handknattleik karla. Viðureignir liðanna eru ævinlega á meðal helstu leikja hvers árs í evrópskum handknattleik. 

Þetta verður sjötti leikurinn sem Anton Gylfi og Jónas dæma í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð en síðast dæmdu þeir leik milli Evrópumeistara Vive Kielce og Flensburg sem fram fór í Póllandi sunnudaginn 12. febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert