Finnur Ingi ánægður með baráttu Gróttumanna

Finnur Ingi Stefánsson fór á kostum í kvöld.
Finnur Ingi Stefánsson fór á kostum í kvöld. mbl.is/Golli

„Þetta var mjög gott stig og við tökum það fegins hendi,“ sagði Finnur Ingi Stefánsson, leikmaður Gróttu, eftir 25:25-jafntefli gegn Val í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld.

Valsarar voru lengst af með öruggt forskot en átta mörkum munaði á liðunum þegar um 20 mínútur voru til leiksloka. Endaspretturinn var gestanna og þeir tryggðu sér dýrmætt stig í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

„Við erum með ágætt sjálfstraust og við höfum mikla trú á okkur. Sex undir, átta undir, við gefum bara allt í þetta og sjáum hvert það fleytir okkur,“ bætti Finnur við en hann kippti sér lítið upp við að hafa skorað 10 mörk.

„Það er fínt. Stigið er mikilvægast í þessu öllu saman.“

Mikil dramatík var í lokin en Valsmenn heimtuðu vítakast eða aukakast í þann mund sem leiktíminn rann út. „Ég sá ekki nákvæmlega hvað gerðist. Það er vissulega árekstur og hann skýtur þrjá metra yfir og það er eitthvað sem maður býst ekki við. En hvort það var fríkast þá sá ég það ekki nógu vel til að dæma um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert