Löwen með yfirhöndina gegn Kiel

Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson voru áberandi í liði …
Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson voru áberandi í liði Löwen.

Það var sannkallaður stórslagur þegar Íslendingaliðin Kiel og Rhein-Neckar Löwen mættust í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í kvöld. Þar fór Löwen með sigur af hólmi á útivelli, 25:24, og er því með yfirhöndina í einvíginu.

Löwen voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10, og bætti í eftir hlé þar sem munurinn var kominn mest í sex mörk áður en lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel gerðu áhlaup. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir minnkaði Kiel muninn niður í eitt mark og aftur þegar fimm sekúndur voru eftir. En Löwen hélt út og uppskar eins marks sigur 25:24.

Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson voru áberandi í liði Löwen og skoruðu báðir fjögur mörk, en markahæstur var Kim Ekdahl du Rietz með sex mörk. Hjá Kiel skoraði Nikola Bilyk mest eða sex mörk.

Síðari leikurinn fer fram á heimavelli Löwen á fimmtudaginn í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert