FH-ingar ráða eigin örlögum

FH-ingurinn Einar Rafn Eiðsson.
FH-ingurinn Einar Rafn Eiðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar tvær umferðir eru eftir af Olís-deild karla er ÍBV í efsta sæti deildarinnar með 33 stig. FH og Haukar hafa jafnmörg stig.

Ekki er hægt að útiloka þann möguleika að liðin þrjú verði jöfn að stigum einnig þegar deildinni lýkur á þriðjudaginn í næstu viku. Hinsvegar geta línur skýrst nokkuð í baráttunni um deildarmeistaratitilinn annað kvöld þegar næst síðasta umferð verður leikin. Þá mætast Haukar og FH á Ásvöllum. Á sama tíma fá Eyjamenn Akureyringa í heimsókn. Akureyringar sitja í neðsta sæti.

Í lokaumferðinni sækja Eyjamenn Valsmenn heim. FH-ingar fá Selfoss í heimsókn og Haukar fara í Mosfellsbæ og leika við Aftureldingu sem er alveg úr myndinni í keppninni um efsta sætið.

Vinni FH-ingar tvo síðustu leiki sína verða þeir deildarmeistarar, sama þótt ÍBV vinni einnig leiki sína. Ástæðan er sú að FH hefur betur í innbyrðisleikjum við ÍBV á tímabilinu. Þar er FH með tvo vinninga gegn einum Eyjamanna.

Verði ÍBV og Haukar jöfn að stigum þá verða Eyjamenn deildarmeistarar þar sem þeir hafa vinninginn í innbyrðis leikjum við Hauka á keppnistímabilinu.

Hugsanlegt er einnig að FH og Haukar verði jöfn að stigum. Til þess verða liðin að gera jafntefli á morgun og bæði að vinna sína leiki í lokaumferðinni að því tilskildu að Eyjamenn fái aðeins að hámarki tvö stig úr síðustu tveimur leikjum sínum. Ef FH og Haukar skilja jöfn annað kvöld og enda jöfn í efsta sæti þá verður FH deildarmeistari þar sem liðið vann fyrsta leik liðanna í deildinni í haust með fjögurra marka mun. Haukar náðu aðeins að svara fyrir sig með eins marks sigri í annarri viðureign liðanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka