ÍR og KR tóku frumkvæðið

Sveinn Andri Sveinsson kemst í færi fyrir ÍR gegn Þrótti …
Sveinn Andri Sveinsson kemst í færi fyrir ÍR gegn Þrótti í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

ÍR og KR eru með yfirhöndina í umspili 1. deildar karla í handknattleik um sæti í efstu deild að ári eftir sigra í fyrstu einvígisviðureignum sínum í kvöld. Bæði unnu liðin tveggja marka sigra; KR gegn Víkingi og ÍR gegn Þrótti.

ÍR var fjórum mörkum yfir gegn Þrótti í hálfleik, 18:14, en jafnræðið var meira þegar yfir lauk og lokatölur urðu 27:25. Daníel Ingi Guðmundsson var allt í öllu hjá ÍR og skoraði 11 mörk, en hjá Þrótti skoraði Óttar Filipp 6 mörk.

KR sótti svo sigur í Víkina, 22:20. Víkingar voru með tveggja marka mun þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum, en KR skoraði hins vegar fjögur síðustu mörkin og uppskar baráttusigur. Arnar Jón Agnarsson var markahæstur KR-inga með 6 mörk eins og Víglundur Jarl Þórsson hjá Víkingi.

Næstu viðureignir liðanna eru á laugardaginn kemur. Vanalega væru liðin að keppa um eitt laust sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð, en ef fram heldur sem horfir verður fjölgað í 12 lið í deildinni. Fari svo munu sigurvegarar einvígjanna tveggja komast upp í efstu deild.

Víkingur – KR 20:22 (10:12)

Mörk Víkings: Víglundur Jarl Þórsson 6, Logi Ágústsson 5, Hlynur Óttarsson 3, Birgir Már Birgisson 3, Magnús Karl Magnússon 2, Ægir Hrafn Jónsson 1.
Mörk KR: Arnar Jón Agnarsson 6, Andri Berg Haraldsson 5, Jóhann Gunnarsson 5, Theodór Ingi Pálsson 2, Viktor Orri Þorsteinsson 1, Þórir Jökull Finnbogsson 1, Pétur Gunnarsson 1, Friðgeir Elí Jónason 1.

ÍR – Þróttur 27:25 (18:14)

Mörk ÍR: Daníel Ingi Guðmundsson 11, Halldór Logi Árnason 3, Sveinn Andri Sveinsson 3, Jón Kristinn Björgvinsson 3, Valþór Atli Guðrúnarson 3, Aron Örn Ægisson 1, Eggert Sveinn Jóhannsson 1.
Mörk Þróttar: Óttar Filipp 6, Aron Heiðar Guðmundsson 5, Magnús Öder Einarsson 4, Styrmir Sigurðarson 3, Jón Hjálmarsson 3, Leifur Óskarsson 2, Viktor Jóhannsson 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert