„Verður varla meiri stuldur en þetta“

Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka.
Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vissum að við ættum fullt erindi í Fram-liðið,“ sagði Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka, við mbl.is eftir tap liðsins fyrir Fram, 23:22, í fyrsta einvígisleik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik.

Fram skoraði sigurmarkið úr mögnuðu aukakasti þegar leiktíminn var runninn út, en Haukar höfðu verið yfir í leiknum framan af og meðal annars með þriggja marka forystu í hálfleik, 11:8.

„Það verður varla meiri stuldur en þetta, en engu að síður erum við ekki að spila okkar besta leik. Við eigum talsvert inni og eflaust telja Fram-stelpur að þær eigi eitthvað inni líka. Heilt yfir er ég nokkuð sáttur við leikinn sem slíkan, það var góð barátta og allt sem þurfti til til þess að vinna leikinn. En það gerðist ekki,“ sagði Óskar.

Fyrir rimmu þessara liða var nokkuð talað um að Fram ætti að vera talsvert sterkari aðilinn. Hjálpaði það Hauka-liðinu hvað það var talað niður?

„Það gefur alltaf eitthvað, en við erum komin lengra en það í þessum bolta en að láta „amatörana“, eins og góður maður sagði, vera að spá í það,“ sagði Óskar. Næsti leikur liðsins fer fram á Ásvöllum, en þrjá sigra þarf til þess að komast í úrslitaeinvígið.

„Nú er auðvitað bara 1:0. Við erum á heimavelli næst og verðum að sækja þar. Við þurfum hins vegar að spila vel og ná því helst í 60 mínútur til þess að hafa sigur. Allir þættirnir þurfa heilt yfir að vera í lagi, mér fannst þeir vera það nokkuð í dag þó að það hafi verið smá ónákvæmni í restina sem hleypti þeim inn í leikinn og gaf þeim færi á að stela þessu í lokin,“ sagði Óskar við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert